mánudagur, febrúar 28, 2005

Til hvers eru...
...haldnar borgaralegar fermingar? Ekki það að ég ætli að tala illa um fólk sem hefur fermst á þann hátt, síður en svo, ég bara skil ekki alveg til hvers fólk er að fermast ef það vill ekki gera það í kirkju. Ferming er staðfesting skírnarinnar samkvæmt því sem ég hef lært. Eftir því sem ég best veit er fermingin kristin menningararfur og er athöfnin framkvæmd í kirkju og af vígðum manni eða konu. Þar eru kennd ýmis gildi eins og boðorðin, gullna reglan, trúarjátning og fleira í þá áttina, sem sagt kristin vígsla. Þess vegna finnst mér það vera ákveðin kjánaskapur að vilja fermast borgaralega bara til þess að fá gjafinar. Fermingin á ekki að snúast um að fá sem mestar gjafir og pening heldur á þetta að vera trúarleg athöfn. Persónulega finnst mér að það ætti að gera fermingar látlausari og með minna umstang í kringum þær. Undirbúningurinn á að vera persónulegri en ekki eins formúluseraður og hann er í dag. Krakkar sem eru á 14. aldursári eru auðvita spennt yfir því að fermast þegar tugir og jafnvel hundruð þúsunda króna eru í húfi. Spurningin er hvort að 14 ára krakkar séu tilbúin fyrir þessa athöfn, ég er ekki viss um það. En eins og ég sagði þá ætla ég ekki að kasta óhróðri á borgaralega fermda einstaklinga, enda eru þeir einstaklingar ekkert verra fólk í mínum augum.
Kempur eru mikið áhugamál hjá mér og fleirum sem ég þekki. Undanfarið hafa farið fram miklar og spennandi umræður um alls kyns kempur, stjórnmálakempur, fótboltakempur, matvörukempur og fleira í þeim dúr. Ég bjó til þrjú kempulið í íslenskum handbolta, ég vill taka það fram að ég var í slagtogi með Gaua þegar þessi lið voru búin til og á hann jafn stóran þátt í þessu liði eins og ég. En áfram með smjörið, lið 1 er þannig skipað;
Markvörður: Brynjar Kvaran, ÍR
Vinsta horn: Jón Þórir Jónsson, Selfoss
Vinstri skytta: Óskar Elvar Óskarsson, HK
Miðja: Guðjón Árnason, FH
Hægri skytta: Júlíus Gunnarsson
Hægra horn: Gunnar Beinteinsson, FH
Lína: Birgir Sigurðsson, Víkingur

Þetta er ansi massívt lið að mínu mati en þetta er alls ekki tæmandi listi, fleiri hetjur eru á kempulistanum eins og Skúli Gunnsteinsson, Friðleifur Friðleifsson, Oleg Titov, Óskar Ármannson, Stálmúsin, Erlingur Kristjánsson, Brynjar Harðarson, Magnús Árnason, Ólafur Gylfason og fleiri magnaðir keppnismenn.

|

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Ég vísa því...
...algjörlega á bug að möguleikar Manchester United á því að komast áfram í Meistaradeildinni séu fyrir bí. Því fer víðs fjarri og er með öllu óásættanlegt að menn úti í bæ séu að draga liðið í dilka hvað eftir annað án þess að það sé nokkur fótur fyrir því sem sagt sé. Hinn annars ágæti markmaður Roy Carroll gerði sig sekan um smávæginleg mistök og eru óþarfa hártoganir í hans garð tóm þvæla og vísa ég þeim til föðurhúsanna. Þori ég að fullyrða að hártoganir þær sem hann þurfi að þola séu beinlínis aðför að hans mannorði og er það hverjum þeim manni sem slíkt lætur hafa eftir sér til mikilla vansa!
Hvað ætli sé bugur? Samkvæmt skólaorðabók Máls & Menningar er bugur bugða í læk en mér finnst afar einkennilegt að það sé staður til að vísa e-u vitlausu á. Sama er með nöf, hvar er ysta nöf og hvernig kemst maður þanngað? Þetta eru allt mjög krefjandi spurningar sem þarfnast útskýringa.

|

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Skák er...
...ekki skemmtileg ef maður kann ekki hugtökin. Því hef ég lagt mig í líma við að kynna mér reglur og hugtakaheim þessarar merkilegu íþróttar. Í dag kemur fyrri hluti þessara hugtaka og seinna meir kemur meira.
að skásetja: þegar biskparnir eru settir á hornalínurnar, a1-h8 eða h1-a8.
afbrigði: hluti af byrjun, t.d. Najdorf afbrigði í Sikileyjarvörn.
afleikur: slakur leikur, táknaður með spurningarmerki (?).
Aftökusveitin: mát með þungu mönnunum, þegar þeir hrekja kónginn út í kant eða upp í borð.
algebruritun: algengasta leiðin til að skrifa skákir. Til er bæði stutt (1.e4) og löng (1.e2-e4) algebruritun. Sú styttri er meira notuð.
alþjóðleg stig: ELO-stig sem maður fær fyrir árangur á alþjóðlegum mótum.
alþjóðlegur meistari: titill sem Alþjóðaskáksambandið veitir skákmönnum, ekki jafn mikilvægur og stórmeistaratitill.
atskák: skák þar sem umhugsunartíminn er 15-60 mín., en langalgengast 25 eða 30 mín.
áætlun: maður verður að finna út hvaða leið er líklegust til vænlegrar stöðu, sú leið er áætlunin sem maður velur.
bragð: þegar peði er fórnað í byrjun fyrir frumkvæði, t.d. kóngsbragð.
byrjun: fyrstu leikir skákarinnar, bera ákveðin nöfn, t.d. skoskur leikur, Aljekínsvörn o.s.frv.
drottningarvængur: vinstri helmingur skákborðsins frá hvítum séð.
ECO (Encyclopedia of chess openings): kerfi sem skiptir skákbyrjunum í 5 bókstafi, A, B, C, D og E, auk tölustafa. Þetta kerfi auðveldar mönnum að flokka byrjanir og þ.a.l. að finna þær í tefldum skákum.
ELO-stig: kerfi sem sýnir styrkleika skákmanna, byggt á árangri þeirra í mótum og einvígjum sem eru reiknuð til þessara stiga. Til að verða stórmeistari þarf t.d. að ná 2500 ELO-stigum.
endatafl: þriðji og síðasti hluti skákarinnar. Þá eru fáir menn eftir á borðinu.
Ég laga/laga/j’adoube: sagt áður en maður lagar staðsetningu manns sem er ekki greinilega á einum reit. Þá fellur niður reglan “snertur maður hreyfður”.
Fallöxin: mát uppi í borði.
FIDE: Alþjóðaskáksambandið. Skammstöfunin er frönsk og stendur fyrir Fédération Internationale Des Échecs.
FIDE-meistari: titill sem FIDE veitir, lægri en bæði alþjóðlegur meistari og stórmeistari í virðingarröðinni.
fingurbrjótur: mjög slakur leikur, táknaður með tveimur spurningarmerkjum (??).
flétta/leikflétta: snjall leikur sem virðist oft slakur við fyrstu sýn, en er útpæld leið sem leiðir til liðsvinnings eða jafnvel til máts.
fórn: manni eða peði fórnað fyrir stærri ávinning, t.d. mát.
framhjáhlaup: peð sem var á upphafsreit, leikið fram um tvo reiti, drepið af peði sem var á reitnum við hliðina á því, er drepið í framhjáhlaupi.
fráskák: taflmaður færir sig þannig að annar sem var á sömu línu skákar.
frípeð: peð sem er komið framhjá peðum andstæðingsins, og á því oft greiða leið upp í borð.
frumkvæði: að vera einu skrefi á undan andstæðingnum.
gaffall: þegar riddari eða peð hótar tveimur mönnum samtímis (riddarinn getur reyndar hótað fleirum).
gambítur: sjá bragð.
GM/IGM: Grandmaster/ International Grandmaster: sjá stórmeistari.
hangandi maður: óvaldaður maður.
heimaskítsmát: mát þegar kóngurinn stendur ennþá á sínum upphafsreit (heimareit). Kemur oft fyrir byrjendur.
hjálparmát: þá hjálpar annar skákmaðurinn (viljandi eða ekki) hinum að máta sig sem fyrst, t.d. 1.f3 e6 2.g4?? Dh4#.
hraðskák: skák þar sem umhugsunartíminn er minni en 15 mín., en oftast 5 mín.
hrókun/hrókering: einu sinni í skákinni má færa kónginn tvo reiti til hægri eða vinstri og hrókinn yfir ef hvorugir hafa verið færðir áður.
IM: International Master: sjá alþjóðlegur meistari.
Informator: Skákrit sem gefið er út þrisvar á ári með skákum bestu skákmanna heims, styðst við ECO-kerfið.
Íslandsmót skákfélaga: öll skákfélög í landinu geta sent sveitir á þetta mót þar sem keppt er í 1.-4. deild um hvaða félag verður Íslandsmeistari. Tefldar sjö umferðir, fjórar að hausti og þrjár að vori. Einnig kallað Deildakeppnin.
jafntefli: hvorugur vinnur og hvorugur tapar.
“kall”: yfirleitt notað um biskup eða riddara, stundum einnig um hrók og drottningu.
kappskák: skák þar sem umhugsnunartíminn er meiri en 1 klst., oft 2 klst. á fyrstu 40 leiki + 30 mín. til að að ljúka skák.
Koss dauðans: mát með drottningu, þegar hún fer alveg upp að kóngi andstæðingsins.
kóngsvængur: hægri helmingur skákborðsins frá hvítum séð.
kæfingarmát: kóngur mátaður og hans eigin menn loka hann inni.

Eins og ég sagði þá er skákin full af afar hressandi fróðleik. Það er mín einlæga von að þetta muni koma e-m til góða í framtíðinni.

|

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Hver man ekki...
...eftir Larry Drake? Þessi stórleikari á einmitt afmæli í dag og er hann hvorki meira né minna en 55 ára gamall takk fyrir. Larry er kannski þekktastur fyrir að hafa leikið meistaralega hlutverk Benny Stulwicz í lögfræðidramanu LA. Law. Um þetta hlutverk sagði hann einu sinni í viðtali; "People were always coming up to me and treating me like I was slow. I would have to tell them 'I'm not really retarded, the character I play on TV is retarded.' It was actually pretty flattering because it showed that these people thought my acting was really that convincing." Þið munið kannski að Benny þessi var einfaldur náungi, seinþroska en einkar góður drengur. Var hann tilnefdur þrisvar sinnum til Golden Globe verðlaunanna fyrir þetta hlutverk og hlaut hann verðlauninn þar af tvisvar. Vel gert Larry.

Larry á einnig glæstan feril sem kvikmyndaleikari og standa þar upp úr kvikmyndinnar Darkman, Bean-the movie og þrekvirkið American Pie 2. Þess má geta að Larry er hávaxinn með eindæmum og mælist hann 191 sentimetri, hvorki meira né minna!
Kæri Larry, innilega til hamingju með afmælið og hafðu það gott í dag.

Þjálfaraferill minn fór inn í nýja víddir í dag. Eitt af liðunum mínum nældi sér í gullverðlaun á deildarmóti Stjörnunnar og það er ekki ofsögum sagt að ég hafi verið svolítið stoltur af stelpunum. Reyndar stóðu öll liðin sig afar vel um helgina og er ég í skýjunum yfir árangrinum.
Það er allt of mikið rót á skipulagi liðsins, það er og mikið rótleysi í gangi þessa stundina. Meikar þessi setning eitthvað sens? Ég heyrði þetta í íþróttalýsingu um helgina og fór aðeins að velta þessu fyrir mér. Getur of mikið rót í liðskipulagi 0rsakað rótleysi? Hvernig getur of mikið rót orsakað skort á róti? Þetta er búið að valda mér miklu hugarangri. Fyrir þá sem ekki vita að þá eru hugarangur og munnangur alls óskyldir sjúkdómar. Hugarangur herjar á heilann og þá innri hugsun sem þar á sér stað. Munnangur er hins vegar sýking sem á sér stað í munninum og getur verið afar þrálát. Upprunni munnangurs er yfirleitt óþekktur og getur sjúkdómurinn spannað afar vítt svið, allt frá minnháttar ertingu til munnkrabbameins. Munnangur getur orsakast af streitu og því bið ég alla sem þjást af þeim kvilla að fara sér hægt því munnangur í bland við streitu getur verið gríðarlega erfitt viðureignar. Eins og sést þá eru munnangur og hugarangur á engan hátt skyld fyrirbæri þó svo að þau hafi svipaða endingu í orðinu.

|

föstudagur, febrúar 18, 2005

Ég er orðinn...
...frekar pirraður á internetinu. Ég er búinn að skrifa tvær nokkuð langar færslur á síðuna í dag og í gær og í bæði skiptin hefur netið dottið út og færslunnar eyðst að sama skapi.
Þess vegna nenni ég ekki að skrifa meira inn í bili vegna mikils pirrings. Hvernig getur maður setið á sér? Það er spurning sem ég hef verið að velta fyrir mér undanfarið. Er mögulegt að setja á sjálfum sér og þá er ég ekki að tala um útúrdúra eins og að setja á höndunum á sér eða eitthvað í þá áttina. Ef eitthver hefur svar við þessari spurningu þá er sá hinn sami beðinn um að hafa samband.

|

mánudagur, febrúar 14, 2005

Það er ekkert...
...smá þægilegt að vera í nýjum sokkum. Ég keypti mér nýja sokka núna í morgun á leiðinni í skólann. Þetta eru svokallaðir Maraþon sokkar og eru þeir einstaklega þægilegir í alla staði. Sokkar eru mjög mikilvægar flíkur. Sokkar skipa svipuðu hlutverki og nærföt, þ.e.a.s. þetta eru flíkur sem sjást sjaldan en þurfa að vera mjög þægileg engu að síður. Þess vegna er mikilvægt að vanda valið þegar það kemur að sokkainnkaupum. Ég mæli eindregið með Maraþon sokkunum, þeir eru sérlega þægilegir og endingargóðir. Einnig mæli ég með Sanpelligrino sokkum, ekki sokkabuxunum frá sama framleiðanda, sem eru einnig gæða sokkar.
Ég var um daginn að hugsa um almenn trúarbrögð og hvort að trúleysi sé að verða algengara. Ég held að trúleysi sé ekki meira en það var hér áður fyrr. Ég held hins vegar að sumir skammist sín eða þori ekki að viðurkenna að þeir/þær trúi á Guð eða aðhyllist kristna trú. Það þykir mér ver og miður. Hins vegar held ég að margir þessara einstaklinga leiti eftir trúarlegri fullnægingu á öðrum stöðum og í öðrum trúarbrögðum. Búddismi, hindúismi, íslam og jafnvel ákveðnar tegundir af gyðningdómi hafa fengið aukna athygli vestrænna manna og leitast margir við að uppfylla trúarlega hvöt sína með því að aðhyllast þessi trúarbrögð. Þeim fer fækkandi sem þora að láta í ljós trú sína á Guð og Jesú en í staðinn fer þeim fjölgandi sem opinbera átrúnað sinn á önnur trúarbrögð. Svo eru líka þeir sem afneita allri trú. Ég er kristinn maður og ég skammast mín ekkert fyrirþað. Ég trúi líka á umburðarlyndi gagnhvart öðrum trúarbrögðum og þeim sem eru án allrar trúar. Umburðarlyndi er ein af stærstu dyggðum mannsins og mættu fleiri taka hana sér til fyrirmyndar. Það fer þess vegna mikið í taugarnar á mér þegar trúleysingar tala niður til trúarbragða og þegar trúmenn tala niður til annara trúarbragða og trúleysinga. Ég virði sjónarmið og trú annara og vill líka að aðrir virði mína trú.
Þessir sokkar sem ég er í eru svakalega góðir!

...en góður kall. Þessi maður hét...

|

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Þetta er búin...
...að vera góð helgi. Kosningarnar eru afstaðnar og allt það sem því fylgir, reyndar bara eftir að finna út hvernig meirihlutinn verður myndaður. En nóg um kosningarnar, þeir og þær sem þessa síðu lesa vita flest allir hvað er að gerast í þessum málum.
Ég hef notað helgina til að slappa af og hef legið eins og skata með tærnar út í loftið. Föstudagurinn var skrítinn, furðulegur dagur í marga staði. Ég var rekinn.
Ég er kominn í utandeildarlið í fótbolta. Þetta er væntanlegt stórlið og eins og öll stórlið þá er liðið með sína eigin heimasíðu. Sól FC. Reynirs mun rísa næsta sumar og mun hún rísa hátt. En ég er afar hógvær maður og ætla ekki að fara að gefa út of miklar yfirlýsingar, ég ætla að láta fyrirliðan sjá um það. Sjálfur er ég þessi hljóðláti vinnuþjarkur, ég spila mína stöðu og er ekki með neinn yfirgang. Ég fer út að völlinn og vinn mína vinnu og vill ekki baða mig í sviðljósinu. Í þessu liði eru margar stórstjörnur og því næsta víst að kastljós fjölmiðlana næsta sumar mun án efa vera á FC.Reynir. Ég mun beina allri athygli æsts múgsins að þeim mönnum sem vilja fá hana því eftir leik vill ég helst setjast niður með kaffi og góða bók.

Einu sinni var maður sem var gamall... framhald seinna.

|

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Í dag kom...
...maður í Árnagarð og var að bera út eftirfarandi tilkynningu;

VARÚÐARORÐ
RÖNG GREINING...

Ungfrú E er greind með Asma/Asmaeinkenni fjögurra ára af heimilsislækni., þá þegar sett á lyf. Skammtur og styrkleiki aukinn næstu tíu árin. Er hún leitar til Heilsu&Vizkukínik fjórtán ára hafa verið reynd þrjú lyf og er hún nýbyrjuð á steralyfi, en foreldrar ekki sáttir, því enginn er árangurinn/batinn. Áviðlíka tímapunkti og hún hefur meðferð hjá H&V bankar hún upp hjá lungnameistar Íslands síra Þorsteini Blöndal, sem útskurðar eftir grunntest: að hæpið sé, að vandamál ungfrú E sé asmi - EN HVAÐ..?

Innúr riti, sem gefð verðu út í næstu viku af Heilsu&Vizkuklínik - greiningardeild og ber heitið : Af krabbameinsrannsóknum.

,,Er nú farið hratt yfir sögu og komið að þeim tímapunkti í framvindunni er greiningadeild lagði upp með í heilsusnepli þessum, eða þar sem ferlið sýnir sig sem : NIÐURBROT Á PÚPUM/HREIÐURSTÆÐUM í meltingarvegi (og víðar).
Ályktunarbært, því velflestir þeirra tíu-tuttugu aðila í Ego-treatmenti, þ.e. Svæðanudd til Hámarksárangurs - ALHREINSUN, sýna viðlíka einkenni, þó mismikil séu...
Hér er greindur í þrennt sá hópur, sem H&V hefur fengist við. Í fyrsta lagi er hluti af fyrirbyggjandi ferli í Alhreinsun að Púpur/hreiðurstæi brotna upp á miðaldra/eldra fólki, ástæðan líklega skortur á lífsrými til sáningar eða þær svelta v/minnkandi neyzlufæðu, eða önnur fullnusta. Í þriðja lagihafa komið til mín svokölluð ,,vonlaus tilfelli“ þ.e. frávisað frá spítala/lækni eftir nokkuð stór beinbrot, eða skurðaðgerð, sem áttu að vera örugg í aðgerð samkv. viðurkenndu/vituðu, en misstu sig í stjórnlausa sýkingu, VEGNA ÞESS AÐ SKURÐIR/BROT RIFU UPP hreiðurstæði/púpur -nanó, sem lokast ekki aftur þó brot skurðir grói, heldur ósa út og suður og upp - spítalasýking, eða önnur fannst ekki.“

Í tilfelli ungfrú E, mun líkjast til flokkast undri síðasta hópinn, púpur opnast v/mikil átök - fæðingu...?
Tilfellið E, sýndi áþekk einkenni og önnur áður upp talin: Mikinn þurrk, ekki aðeins í slímhúð nefs /munnhols eða höndum, efni úr niðurbroti sest utan á innkirtla. og hamlar stafsemi þeirra til að mynda nýrnahettna, ósar einnig upp blokkera starfsemi heiladinguls, sest í blöðrulag nýrna, blöðrulag lungna, Í tilfelli E, með lélegt starfani brjósthol virkar þetta hamlandi. Heldur jókstnú skilningur á mæðu/öndunar vandræðum kerlingar, er við nánari greiningu fannst lítið gat í hjarta - ættlegt. Ósun úr púpuniðurbroti og gar við/í hjarta, þannig að vinnsla hjartans er ekki 100% upptaka, heldur einnig hjáseiti gætirennt stoðum undir Merarhjartakenningu H&V - en það er allt annar handleggur.
í öllu falli, vill greiningardeild H&V senda út þá viðvörun, til foreldra og lækna á grundvelli ófanskráðs, að EINKENNI, SEM HAFA VERIÐ LESIN SEM ASMI/ASMATILHNEYGING eigi sér annan grunn.

...VELDUR SKAÐA.
Heilsu & læknaklínink,
Dr. milljón - 070848-4499


|

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Ég veit...
...ekki hvað ég á að skrifa um.

|

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Mikið er ég...
...ánægður að hann Oddur afi minn skuli loksins fá að hitta hana Svönu ömmu. Ég á margar góðar og fallegar minningar um afa. Mér fannst það alltaf svolítið gaman og sérstakt þegar ég var lítill að fara í heimssókn til afa. Alltaf átti hann til sögur um það þegar hann var á sjónum og það skipti ekki máli hvað bát maður benti á, hann gat alltaf sagt hvað sá bátur hét og þulið alla sögu bátsins. Ég veit að afi var alltaf stoltur af okkur frændsystkynunum. Hann ljómaði alltaf allur þegar hann sá okkur. Núna þegar ég loka augum þá sé ég afa með glaðvært bros á vör, hlýlegan og góðan mann, sem hann var. Ég er stoltur að þú sért afi minn og mig þykir óskaplega vænt um þig. Elsku Oddur afi, sofðu rótt og faðmaðu ömmu fyrir mig.

|

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Hvernig fer maður...
...að því að kasta mæðinni? Það er góð spurning, kasta blessaðri mæðinni, gríta henni út í veður og vind. Ég hef stundum reynt að kasta mæðinni í burtu og losa mig við þessa grílu, það hefur hins vegar ekki tekist sem skildi því ég á í mestu vandræðum með að finna þessa mæðu, hvar hún er og hvernig ég geti kastað henni.
hahahaha... I am going on options. Kosningabaráttan er komin á fulla ferð og hörku vinna sem því fylgir. Það er líka afar áhugavert að hlusta á allt það fólk sem við mætum á förnum vegi á Háskólasvæðinnu. Háskólinn býr að mögnuðu fólki, fólki úr öllum stéttum þjóðfélagsins og fólk sem kemur líka alls staðar að. Mannflóran er mikil og áhugaverð og gaman að sjá Háskólann opinn fyrir öllum, sama hver sú manneskja er og hvernig hún lítur út. Háskólinn á að vera opinn öllum og þannig vill ég halda mínum skóla áfram. Því segi ég nei við skólagjöldum, því það skerðir möguleika fólks að stunda háskólanám, þannig á það ekki að vera.

|
eXTReMe Tracker